Naan brauð „fluffy og flott“

Fínt að henda í deigið ca 2 klst áður en á að bera brauðið fram. Uppskriftin passar í 6 kökur sem eru steiktar á þurri pönnu.

1 tsk (4 gr) þurrger

125 ml volgt vatn

1 msk sykur

30 gr mjólk

30 gr hrært egg (1/2 egg)

1/2 tsk salt

270 gr hveiti

2 msk brætt smjör

Þurrger og sykur sett í volgt vatn og látið standa þar til gerinn fer að freyða. Hræra saman mjólk og egg, setja hveiti og salt í skál. Þegar gerinn freyðir er öllu blandað útí hveitið ásamt brædda smjörinu og hrært saman með sleif. Hnoðað í lokin til að ná því vel saman. Ekki þarf að hnoða lengi. Deigið á að vera frekar blaut en ekki þannig að það klístrist við fingurna.

Breiða yfir deigið í skálinni og láta standa í 1-1,5 klst á volgum stað eða þar til deigið hefur tvöfaldast í stærð. Takið þá deigið og setjið á hveitistráð borð (mjög lítið hveiti). Skiptið deiginu í 6 bita og mótið kúlur. Látið þær standa undir klút í 15 mínútur áður en þær eru flattar út með höndunum. Alveg hægt að nota kökukefli líka en þær þurfa að vera svona 3-4 mm þykkar.

Panna hituð vel og ef þarf, þá má strjúka örlítilli olíu á hana, annars bara hafa hana þurra. Ég er með keramikpönnu og hef hana þurra.

Flatkökurnar eru svo steiktar í ca 1.1,5 mín áður en þeim er snúið við. Síðari hliðina þarf að steikja aðeins styttra. Því heitari sem pannan er, þeim mun meiri búbblur myndast á deiginu og það verður líkara upprunalega naan brauðinu.

Ég var með brætt smjör með mörðu hvítlauksrifi og söxuðum kóríander sem ég penslaði brauðið með. Þetta var TRYLLT GOTT !!

Færðu inn athugasemd